Sunday, October 31, 2010

Steikarsamloka meistaranna

 Þegar við viljum gera vel við okkur er þessi dúndur nautasamloka á boðstólnum á mínu heimili

500 gr gott nautakjöt (lundarbiti) eða mínútusteik
Gott fransbrauð, Verónabrauðið í Hagkaupum er frábært
1 box sveppir
2 rauðlaukar
1 pk klettasalat
250 gr smjör
4 eggjarauður
1 msk. Bearnaise essens
1 msk. Tarragon eða Fáfnis gras
1 tsk. Kjúklingakraftur  eða salt

Byrjið á því að elda lundina. Steikið hana á öllum hliðum á rjúkandi heitri pönnu þar til að hún er vel brún. Saltið og piprið hana og setjið inn í ofn á 200 gr í 10 mín (fer að vísu alltaf eftir stærð). Passið að hvíla kjötið í 5 – 10 min eftir að þið eruð búin að taka það úr ofninum annars lekur allur safinn út kjötinu. Ef þið eruð með þunna mínútusteik þá steikið þið hana örstutt á sjóðheitri pönnu í 1 1/2  - 2  mín á hvorri hlið og passið að hvíla undir álpappír í 5 mín líka. 
Steikið sveppi og lauk upp úr smá smjöri og olíu

Bearnaise sósa: Takið eggin úr ískáp nokkrum klukkustundum áður en þið farið að elda svo að eggin nái stofuhita. Bræðið smjör og kælið í stofuhita. Skiljið eggin í skál og bætið við kryddinu. Blandið smjörinu rólega (mjórri bunu) saman við eggin þeytið á meðan í hrærivél eða með þeytara. Smjörið má alls ekki vera of heit því annars fara eggin í kekki.  Þegar blandan er ljós og létt er sósan tilbúin. Berið hana strax fram. Það er ekki auðvelt að hita upp Bearnaisesósu því hún fer auðveldlega í kekki.

Skerið brauðið í vænar sneiðar og ristið. Setjið smá sósu á brauðið og því næst klettasalat. Skerið kjötið í þunnar sneiðar og leggið ofan á. Setjið rjúkandi heita sveppi og lauk ofan á kjötið og að lokum Bearnaise sósu til að toppa herlegheitin. Berið fram með góðu rauðvíni   


No comments:

Post a Comment