Friday, February 18, 2011

Dill fiskibollur með grænmetisgrjónum

Fiskur gerir okkur fallegar, klárar og grannar og því ættum við að borða sem mest af honum. Soðin ýsa er kannski ekki svo spennandi oft í viku þótt að hún sé frábær. Því er um að gera að setja fiskinn í felubúning til að lokka fjölskyldumeðlimi til að borða meiri fisk. Þessar bollur eru bragðgóðar, hollar og fljótlegar og gott að bera þær fram á virkum kvöldum þegar að tíminn er oft naumur.



Dill fiskibollur

600 gr fiskur (ýsa, þorskur, lax)
1 egg
1 brauðsneið (ristuð og mulin í mylsnu)
1/2 laukur
2 hvítlauksrif
2 - 3 msk ferskt dill (1 - 2 stk þurrkað)
salt og pipar (1 - 2 tsk)
1 tsk smjör
2 msk olía

Setjið fisk í matvinnsluvél, maukið hann vel og setjið farsið í skál. Saxið lauk, hvítlauk og dill smátt og blandið við fiskinn. Bætið eggi og brauðmylsnu saman við ásamt salti og svörtum pipar og blandið vel saman við. Bræðið smjörið í olíunni á pönnu og formið bollur úr farsinu. Steikið á meðalhita á hvorri hlið í 5 mínútur. Það má líka baka bollurnar í ofni í 15 mín við 200 gráður.

Grænmetisgrjón
Það er frábært að sjóða grjón með grænmetinu sem þið ætlið að bera fram með réttinum en þetta er mjög gott bæði með fiski og kjúkling.
Það má nota það grænmeti sem er til í ísskápnum hverju sinni td. brokkolí, gulrætur, tómata í dós, púrrulauk eða bara hvað sem ykkur dettur í hug. Einnig má nota Saffran eða Turmeric til að krydda þau enn frekar. Hafið bara í huga að suðutími grjónanna er u.þ.b. 15 mínútur en suðutími grænmetis getur verðið mismunandi.

1 - 2 paprikur t.d. rauð og gul
1 - 2 dl frosnar grænar baunir
100 gr grjón
6 dl vatn
1/2 kjúklinga- eða grænmetiskraftur
Skerið paprikur í munnbita og léttsteikið í smá olíu í  2-3 mín. Bætið grjónum, krafti, vatni (4 dl) og baunum saman við grænmetið. Það er gott að bæta restinni af vatninu smám saman við svo grjónin verði ekki enn á kafi í vatni þegar að þau eru tilbúin. Látið sjóða í 15 mín.

Jógúrt sinneps graslaukssósa
1  dós hrein jógúrt - (má líka vera sýrður rjómi)
1 tsk gróft sinnep
2 msk saxaður graslaukur

Blandið öllu saman og berið fram.


No comments:

Post a Comment