Friday, January 21, 2011

Blóðug og karlmannleg bóndadagssteik

Í dag er  bóndadagurinn en ég er mikill aðdáandi bónda, konu, mæðra og Valentínusardagsins. Það er á þessum dögum sem maður dekrar örlítið við þá sem að í kringum mann eru.
Extra dekur gleymist oft í daglegu amstri og að mínu mati mættu þessir dagar alveg vera fleiri. Á svona tyllidögum kýs ég að bjóða upp á góðan mat í stað þess að eyða peningum í dýrar gjafir eða blóm, það er líka alltaf skemmtilegra að gefa eitthvað sem kemur beint frá hjartanu.
Bóndanum á mínu heimili finnst lítið varið í að fá blómvönd. Þorramatur á heldur ekki upp á pallborðið hjá honum en hann kemur frá Serbíu og þar er ekki sterk hefð fyrir hákarli og hrútspungum.
 Því hef ég ávalt boðið honum upp á góða djúsí steik og ískaldan bjór á bóndadag. (ég sé svo um uppvaskið :) Ekki skemmir fyrir að  skella á sig eldrauðum varalit eða gramsa eftir sætri brók í nærfataskúffunni svona í tilefni dagsins.

Þessi uppskrift er agalega einföld, fljótleg og lítið mál að græja eina svona steik eftir vinnu á föstudegi.


(fyrir 2)

Nautalund eða annað gott nautakjöt (200 - 250 gr á mann)
1/2 box sveppir
1 bréf beikon (ca 200 gr)
1 peli rjómi
500  frosnar kartöflur (Ég nota skífur), Olía (ekki ólífuolía) salt og svartur grófur pipar


Takið kjötið úr ísskáp 1 - 2 tímum fyrir eldun og geymið við stofuhita.
Hitið ofn í 200 gr. Hitið olíu á pönnu á háum hita. Piprið lundina vel.  Brúnið lundina og steikina á vel öllum hliðum svo að kjötið lokast vel (uþb 5 mín, fer eftir stærð)
Setjið steikina í ofn í svona 8 - 10 mín (hér á ég við lund) Auðvitað er best að nota kjöthitamæli en ég hef aldrei átt svoleiðis og þetta er því mitt trix til að ná góðri medium rare steik. Um leið og ég tek kjötið úr ofninum pakka ég því inn í álpappír á meðan að ég geri sósuna og kartöflur.

Eldið kartöflur samkvæmt leiðbeiningum.
 
Sósa:
Skerið beikonið í litla bita og steikið þar til að það fer að verða stökkt. Takið af pönnu og látið fituna leka af því á eldhúsbréfi.
Skerið sveppi í ferninga eða sneiðar og steikið á hreinni pönnu úr 1 msk af smjöri  þar til að þeir eru fallega brúnir ( uþb 10 mín)
 Bætið beikoni og rjóma á pönnuna með sveppum og látið malla á lágum hita á meðan að kjötið og kartöflurnar eru í ofninum. Smakkið til með salti en beikonið er yfirleitt það salt að ég sleppi oftast auka salti.

Saltið og skerið lundina í sneiðar og setjið á fat, ég set oft smá klettasalat og rauðlauk á fatið til skrauts en minn bóndinn er ekki mikið fyrir salat (fyrir honum eru kartöflur grænmeti svo að ég leyfi honum að hafa rétt fyrir sér í tilefni dagsins).

 Berið steikina fram með sósunni, karöflum og ískaldri Stellu :)


Tips:
Hvernig skal að matreiða hina fullkomnu nautasteik.
Kjötið á að vera við stofuhita þegar að það er eldað, ekki ískalt.
Brúna þarf steikina á háum hita svo að ekki sjáist í rautt kjöt (þetta verður að gerast snögglega, kjötið á ekki að hangsa á pönnunni bara rétt tyllið því) Það er frábært að vera með kjöthitamæli til að vita stöðuna  á kjötinu, það á ekki að vera að skera mikið í steikina því að þá lekur safinn úr henni.

Rare — 52 °C .
Medium rare — 55 °C
Medium — 60 °C
Medium well done — 65 °C
Well done — 71 °C
Of eldað —  72 °C og yfir

Ekki skera kjötið um leið og það kemur úr ofninum, kjötið verður að fá að standa í 5 -10 mín eftir eldun til að það jafni sig og safinn fái að setjast vel í kjötinu.


Gleðilegan bóndadag :)

No comments:

Post a Comment