Tuesday, May 31, 2011

Unaðsleg kálfasteik

Kálfakjöt er að mínu mati allra besta kjöt sem hægt er að fá og ótrúlegt en satt er það oft mun ódýrara en nautakjöt. Þegar að þú hefur jafn ótrúlega flott hráefni eins og kálfakjöt, er um að gera að hafa þetta súper einfalt, það er best þannig. Það er oft erfitt að fá kálfakjöt en það er oftast til í Hagkaup í Garðabæ eða í Melabúðinni.


600 gr kálfalundir
1 msk smjör
2 msk olífuolía
Safi úr 1 sítrónu og börkur
100 ml hvítvín
50 gr parmesan ostur
Salt og pipar

Hreinsið allar sinar af kjötinu og skerið kjötið í þriggja sentímetra sneiðar. Berjið sneiðarnar með kjöthamri (sléttu hliðina) þar til að  þið eruð komin með þunnar sneiðar. Það er gott að setja sneiðarnar í plastpoka og lemja þær létt með hamri en passið að kjötið rifni ekki. Bræðið smjörið í olíu á góðri pönnu og hitið vel en gætið þess að brenna ekki smjörið. Steikið kjötið í 2 mínútur á hvorri hlið eða þar til að það er fallega brúnt. Hellið hvítvíni, sítrónusafa og berki og fáið upp suðu. Stráið parmesanosti yfir kjötið og kryddið með salti og svörtum pipar. Látið malla á lágum hita í 2 -3 mínútur.

Það er hrikalega gott að bera fram með rösti kartöflum og góðu klettasalati með fallegum tómötum og balsamic gljáa og vænni slettu af sýrðum rjóma. Ég ríf sítrónubörk út í sýrða rjómann en það gefur mjög gott og sumarlegt bragð.

Njótið vel


No comments:

Post a Comment