Friday, March 4, 2011

Ljúffeng og holl indversk súpa með jógúrti og heimabökuðu nanbrauði

Það er frábært að nýta afganga í þessa súpu og nota það grænmeti sem til er í ísskápnum hverju sinni. Hún er holl, ódýr, ótrúlega fljótleg og bragðgóð.

Þetta fer í súpuna:

1 dós rauðar nýrnabaunir (1 bolli ef að þær eru ósoðnar, munið bara að láta þær liggja í bleyti í 12 tíma)
1 dós hakkaðir tómatar
4 gulrætur (skornar í litla bita)
2 sellerístönglar (saxaðir)
1 laukur (fínt saxaður)
2 hvítlauksrif (fínt saxað)
1 sæt kartafla (skorinn í munbita)
2 bollar blómkál (skorið í munnbita)
1 tsk kóríander fræ
1 msk Garam Masala
1/2 tsk Cayennepipar
1 stk eða 1 msk kjöt eða græmetiskraftur
Salt & pipar eftir smekk
1/2 l vatn
Ólífuolía

Setjið gultætur, lauk og sellerí í pott með 1 - 2 msk af olíu og steikið á lágum hita í 10 mín. Bætið við hvítlauki,  kóríanderfræum, Cayennepipar, Garam Masala og steikið með grænmetinu í 5 mín á lágum hita.
Bætið næst tómötum, vatni, krafti og blómkáli, sætum kartöflum og baunum saman við grænmetið í pottinum og sjóðið í 10 mín. Ósoðnar nýrnabaunir þurfa lengri suðu (uþb. 20 - 25 mín) en kartöflurnar og blómkálið bara 10 mín svo ef þið eruð með ósoðnar baunir bætið kartöflum og blómkáli saman við þegar baunirnar eru búnar að sjóða í 10 - 15 mín. Smakkið til með salti og pipar.Þessi súpa er alls ekki sterk og 3 ára sonur minn borðar hana með bestu list. Ef þið viljið hafa hana sterkari má alveg auka kryddmagnið en þið getið bætt því við smám saman út í vatnið. Þessi súpa verður betri daginn eftir svo það er um að gera að útbúa hana tímanlega, jafnvel daginn áður. Það má líka setja minna vatn í pottinn og þá verður súpan eins og góður pottréttur.

Ég ber hana fram með heimabökuðu „naan brauði“, góðri slettu af jógúrti eða ab mjólk og ferskum kóríander


Heimabakað „naan brauð"


1 kúla pizza deig
3 msk ólífuolía
1 tsk maldon salt (alls ekki nota venjulegt fínt salt)


Hitið ofninn í 250 gráður og stillið á blástur. Skerið kúluna í 4 bita og fletjið það út þar til að þeir eru 1 cm þykkar. Penslið með olíu og toppið með örlitlu salti. Setjið bökunarpappír á ofngrind og bakið neðst í sjóðheitum ofni í 8 mín.


No comments:

Post a Comment